Fimmvörðuháls

Mjög vinsæl gönguleið er frá Skógum milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls yfir Fimmvörðuháls yfir í Goðaland og Þórsmörk. Nafnið er dregið af fimm vörðum er stóðu þar nokkuð þétt til að vísa leiðina í dimmviðri. Þegar innar er komið er þar einnig Þrívörðusker. Fyrrum ráku bændur undir Austurfjöllum ær sínar þessa leið yfir í grösuga sumarhaga en því var hætt árið 1917. Jöklar ýmist hopa eða stækka og þegar þeir tóku að hopa um miðja síðustu öld komu undan ísnum á þessari leið vörðubrot, kindabein og járningaáhöld. Öll leiðin er um 24 km löng. Hægt er að gista í skála á leiðinni og fara hana á tveimur dögum. Skálinn er í um 1.100 metra hæð þannig að þetta er brött leið og allra veðra von og hafa menn orðið úti á þessari leið. Einnig er vinsælt að láta aka sér upp að skála og ganga leiðina niður í Þórsmörk á einum degi. Gengið er, eins og fyrr segir, á milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls og niður er farið eftir Heljarstíg um Heljarkamb og er hann svo brattur að settar hafa verið keðjur þar til stuðnings.