Krappi

Krappi nefnist hrauntunga er gengur fram á milli Fiskár og Eystri-Rangár. Þar er fallegt, mjög vel gróið og góðar gönguleiðir. Best er að fara yfir Fiská á vaði niður við ármótin og fallegt er að ganga upp með ánni upp að Bæjarfossi. Er hann hefur verið skoðaður er för haldið áfram og er þá brátt komið að skóginum í Krappa. Þar voru 2,6 ha girtir af árið 1950 en fyrir voru kjarrleifar og birkihríslur í klettum og brúnum. Forsvarsmaður að þessari girðingu var Ólafur Bergsteinsson á Árgilsstöðum en hann var í stjórn Skógræktarfélagsins í 43 ár og hafði mikinn áhuga á trjárækt. Þarna er vaxinn upp fallegur skógarlundur með blönduðum tegundum. Þarna eru skógarfurur frá 1951-1952 orðnar gríðarháar, allmyndarleg sitka grenitré frá sama tíma, heilmiklir stafafuru lundir frá 1963 þar sem furan er farin að sá sér. Háar aspir eru þarna, blágreni og líklega hvítgreni og allháir þinir. Í gegnum svæðið er nokkurs konar gjá sem gott er að ganga eftir. Þá er þarna einnig hring hlaðið fjárbyrgi. Síðan má ganga upp með Rangá, skoða Tungufoss og fara að Teitsvötnum og sumarhúsabyggðinni í Reynifellshólma.