Mögugilshellir

Mögugilshellir er í Þórólfsfelli í Fljótshlíð. Þessi hellir er vel þekktur af heimamönnum og hellakönnuðum. Hellirinn er í blágrýtisæð og hefur hann myndast vegna gasbólu eða loftþrýstings. Hann er um 15 metra langur. Hellisveggirnir eru þaktir blágrýtistaumum og innarlega í honum eru einhvers konar gúlar um einn metri að þvermáli, kolsvartir og gljáandi. Hellirinn er náttúrufyrirbrigði og einstakur sem slíkur og ekkert skyldur hraunhellunum okkar. Hellinum hefur verið lýst svo í náttúrufræðiritum: ,,einstakur og ekki vitað um annan svipaðan, hvorki hér á landi né annars staðar á jörðinni“. Hellismunninn liggur neðarlega í Mögugili en niður gilið rennur lítill lækur. Vegna nálægðar við lækinn fylltist hellismunninn í vorleysingum fyrir rúmum 40 árum. Fyrir um 25 árum tóku sveitungar sig til og gerðu bílastæði fyrir neðan gilið og mokuðu hellinn upp að hluta. Efri hellirinn eða „göngin“ voru mokuð upp. Það voru um 6 metrar. Þá var gerður um 1,5 metra hár garður til að varna því að aftur renni inn í hellinn. Þessi garður sópaðist í burtu um veturinn og hellirinn fylltist á ný. Sveitarstjórn Rangárþings eystra ákvað svo veturinn 2006 að hefjast aftur handa við að hreinsa út úr hellinum. Sumarið 2007 mokaði vaskur hópur manna frá munnanum og inn í hellinn (sjá mynd frá árinu 2007). Ekki er gott að komast í hellirinn þar sem hann fyllist iðulega aftur. Mynd: Þorsteinn Jónsson.