Seljalandsfoss er líklega einn þekktasti foss landsins enda er hann mjög ferðamannavænn. Seljalandsá á upptök sín á heiðinni fyrir ofan og rennur hún um Tröllkonugil. Það heitir eftir tröllkonu einni sem var að flýja hávaðann í kirkjuklukkunum í Ásólfskála. Hægt er að ganga á bak við fossinn og koma fram hinum megin við hann, eða með öðrum orðum, ganga undir hann. Á kafla getur verið blautt á leiðinni en það er alltaf þurrt á bak við hann. Þar er óviðjafnanlegt að standa og horfa á þetta mikla vatnsfall falla yfir höfuð manns úr rúmlega 60 metra hæð. Seljalandsfoss er upplýstur á kvöldin og veturna. Við bílastæðin hefur verið komið fyrir salernum og þjónustuhúsi. Mjög fallegt er að ganga frá fossinum yfir að Gljúfrabúa, meðfram tjaldsvæðinu við Hamragarða og þjónustuhúsinu þar. Við göngustíginn undir klettunum er mikið af hvönn, blágresi og öðrum blómjurtum. Seljalandsfoss ásamt brekkum er friðlýstur.