Þjófafoss – Þjófhellir – Þorleifsstaðahellir

Fyrir ofan Þríhyrning rennur Þjófá og í henni eru tveir fallegir fossar og hellisskúti sem er frekar vandfundinn. Til þess að komast að svæðinu þarf að keyra upp með fram Tumastöðum, Tungu og Vatnsdal. Fara þarf yfir Fiská (aðeins fyrir jeppa) og að Þríhyrningi norð-austan megin.

Í þessum hellisskúta dvöldu tveir þjófar á árunum 1743-1744. Þeir voru hengdir á Þingskálaþingi er þeir náðust. Dregur áin nafn sitt af þessum útileguþjófum og segir sagan að þeir hafi verið svo fóthvatir að ekki urðu þeir eltir uppi á hestum. Sluppu þeir jafnan og hurfu er gerð var aðför að þeim. Einhverju sinni var þar drengur á ferð og rakst á kindahausa nokkra við hellismunann. Spruttu þá hellisbúar upp en drengur komst á hest sinn og vildi það honum til lífs að hann var á úrvalsgæðingi prestsins á Staðnum. Þjófarnir eltu dreng fram á brúnir Fljótshlíðar og dró hvorki sundur né saman með þeim fram í byggð. Gat drengur nú sagt til þeirra og náðust þeir þar um síðir. Húsarústir bæjarins að Þorleifsstöðum eru þarna nokkru ofar. Sá bær og bæirnir í kring fóru í eyði í Heklugosinu 1947 eða upp úr því sökum vikurfalls. Þetta er fallegur staður til að stoppa á, sér í lagi í hestaferðum þarna um. Austan við rústirnar við Fiská er bergstandur er nefnist Smali og þar rétt ofar er manngerður hellir, allstór og með hlöðnu loftopi upp í gegnum þakið. Hellirinn er friðlýstur.