Þjófafoss – Þjófhellir – Þorleifsstaðahellir

Fyrir ofan Þríhyrning rennur Þjófá og í henni eru tveir fallegir fossar og hellisskúti sem er frekar vandfundinn. Til þess að komast að svæðinu þarf að keyra upp Gunnarsholtsveg á Rangárvöllum (nr.264) og beygja svo inn á Fjallabaksleið syðri (F210). Keyra svo áfram veg nr. 2655 að Fiská en þar er bílastæði og gengið upp Þríhyrning.

Í þessum hellisskúta dvöldu tveir þjófar á árunum 1743-1744. Þeir voru hengdir á Þingskálaþingi er þeir náðust. Dregur áin nafn sitt af þessum útileguþjófum og segir sagan að þeir hafi verið svo fóthvatir að ekki urðu þeir eltir uppi á hestum. Sluppu þeir jafnan og hurfu er gerð var aðför að þeim. Einhverju sinni var þar drengur á ferð og rakst á kindahausa nokkra við hellismunann. Spruttu þá hellisbúar upp en drengur komst á hest sinn og vildi það honum til lífs að hann var á úrvalsgæðingi prestsins á Staðnum. Þjófarnir eltu dreng fram á brúnir Fljótshlíðar og dró hvorki sundur né saman með þeim fram í byggð. Gat drengur nú sagt til þeirra og náðust þeir þar um síðir. Húsarústir bæjarins að Þorleifsstöðum eru þarna nokkru ofar. Sá bær og bæirnir í kring fóru í eyði í Heklugosinu 1947 eða upp úr því sökum vikurfalls. Þetta er fallegur staður til að stoppa á, sér í lagi í hestaferðum þarna um. Austan við rústirnar við Fiská er bergstandur er nefnist Smali og þar rétt ofar er manngerður hellir, allstór og með hlöðnu loftopi upp í gegnum þakið. Hellirinn er friðlýstur.