Frá farfuglaheimilinu í Fljótsdal er fögur gönguleið upp á Þórólfsfellið sem er 574 metrar á hæð. Gengið er yfir Þórólfsá á göngubrú við gljúfurendann. Þaðan er gengið upp með gljúfrinu eftir kindagötum og stefnan tekin rakleiðis á toppinn. Valin er leið upp á grjóthrygg og þaðan eftir grasbala upp fyrir brún. Fjallið er nokkuð flatt að ofan og þarf að ganga aðeins inn á fjallið áður en raunverulegum toppi þess er náð. Þarna er varða með fastmerki frá Landmælingum Íslands frá árinu 1958. Þórólfsfellið verður e.t.v. ekki kallað mjög formfagurt fjall, það lætur lítið fara fyrir sér innan um hákarlana í kring. Það eru einmitt þeir sem ættu að draga fólk upp, útsýnið er stórfenglegt með jöklana þrjá, Tindfjallajökul, Eyjafjallajökul og Mýrdalsjökul, hringinn í kring. Þetta er ekki mjög erfið ganga, tekur góða kvöldstund, 3-4 tíma. Ef menn hafa hins vegar daginn fyrir sér er sjálfsagt að taka stefnuna á Mögugilið í stað þess að ganga beint í bílinn aftur. Í Mögugilinu eru gríðarlegar móbergsmyndanir. Gengið er undir stórgrýtiskletta og gegnum hella og er þetta mikil ævintýraferð. Neðarlega í Mögugilinu er svo Mögugilshellir sem er mjög sérkennilegur blágrýtis dropahellir, sá eini sinnar tegundar í heiminum, svo vitað sé. Farin var fjölskylduganga á Þórólfsfell á vegum HSK vorkvöld eitt árið 2007. Þá var komið fyrir gestabók á fjallinu og skrifuðu rúmlega 150 manns sig í hana um sumarið. Einn göngugarpa, Guðni Guðmundsson á Þverlæk, skrifaði þessa vísu í gestabókina:
Mér er fjarri að fara hratt eða fjöll að klífa um nætur.
Þórólfsfellið þæfingsbratt þreytir mína gömlu fætur.
Ekki þýðir að fást um slíkt ætíð þörf að fara á stjá.
Útsýnið hér er engu líkt yfir fjöll og jökla þrjá.
Golan leikur létt um kinn lýjandi fjalla sprettir.
Þrautin leyst í þetta sinn,
það er mikill léttir.
Í Þórólfsfelli er gangnamannakofi í eigu fjallskilasjóðs Fljótshlíðar.