Hellisvellir

Þar var gangnamannakofi sem nú er hruninn. Þessi kofi var lítill svo ekki rúmaði hann alla leitarmenn og gistu því ungsmalar í helli þar rétt hjá. Þar er einnig hellisskúti og höfðu ungsmalarnir það til siðs að safna þar saman tómum fjallpelum leitarmanna og geyma í þessum skúta og heitir hann síðan Flöskuhellir. Fyrir framan kofann á vinstri hönd er lítið dalverpi og neðst í því er hlaðin hestarétt. Úr henni var síðan girt fyrir dalverpið og myndaðist þá þar aðhald fyrir fjallsafnið. Fyrir ofan kofarústirnar eru tvö falleg gil sem gaman er að ganga í. Frá Hellisvöllum er gönguleið inn með Gilsárgljúfrum upp að Hesti og Meri og þaðan jafnvel yfir í gangnamannakofann á Einhyrningsflötum. Ef hins vegar er haldið áfram veginn inn á Einhyrningsflatir liggur leiðin um Tröllagjá. Tröllagjáin endar niður við Markarfljót á móts við Húsadal. Þar eru uppi hugmyndir um að setja göngubrú yfir fljótið og í Þórsmörk. Í Tröllagjá eru Valshamar og Valshamarsgil sem skemmtilegt er að skoða.