Fréttir

Ungmennin fögnuðu góðri vinnu í Tungu- og Tumastaðaskógi

Í lok síðust viku komu saman öll ungmenni sem hafa unnið við fegrun og endurbætur í Tungu- og Tumastaðaskógi í Fljótshlíð í sumar og grilluðu. Tilefnið var að verkefnin í skógunum var að ljúka, en þau hafa staðið sig einstaklega vel og hafa grisjað og hreinsað brotnar greinar og séð um að kurla það líka. Þau lögðu hátt í 2 km af kurli í göngu og hjólastíga. Búið er að slá flatir og setja þar bekki og borð. Eldstæði var hlaðið þar sem hægt er að grilla, vatnslögn var lögð að salernishúsi og komið var upp vatnskrana fyrir neysluvatn. Bekkir, gerðir úr timbri úr skóginum, eru á megingönguleiðinni þar sem gott er að sitja og hlusta á lífið í skóginum og finna ilminn af trjánum. Aðgengi að svæðinu hefur verið bætt með stækkun bílastæða. Ungmennin prófuðu hjólaleiðirnar sem eru stikaðar og merktar og allir ánægðir með afraksturinn. Samstarf hefur verið við Skógræktina við þessa vinnu og er nú unnið að nýju yfirlitskorti fyrir svæðið allt.

Einar í Háamúla rifjar upp gamlan tíma og kynni sín við Múlakotsheimilið

Einar Sigurþórsson frá Háamúla í Fljótshlíð rifjar hér upp gamlan tíma og kynni sín við Múlakotsheimilið. Skemmtilegur og fróðlegur lestur þar sem Einar lýsir íbúum og aðbúnaði í Múlakoti einstaklega vel. Einar Sigurþórsson rafvirki er uppalinn í Háamúla í Fljótshlíð, nokkru innar en Múlakot. Þar hefur hann búið stóran hluta ævinnar og unnið sem rafvirki um áratuga skeið víða um Suðurland. Hann var og er enn tíður gestur í Múlakoti, enda tekur hann nú þátt í enduruppbyggingu gamla bæjarins í Múlakoti.

Ný 25 metra löng göngubrú yfir Krossá í Þórsmörk

Ferðafélag Íslands hefur tekið í notkun nýja göngubrú yfir Krossá. Göngubrúin er 25 metra löng og á hjólum. Stefán Jökull Jakobsson, umsjónarmaður skála, segir að brúin sé kranabóma og smíðuð á vörubílahásingar svo hægt sé að færa hana eftir þörfum þar sem Krossá er breytileg. Hann bendir fólki á að nú gæti gestir sem ekki treystu sér á bílum yfir Krossá lagt bílunum við Álfakirkju og farið fótgangandi yfir í Langadal.

Fjölskyldumiði á Skógasafn í allt sumar

Skógasafnið á Skógum tekur vel á móti fjölskyldum í allt sumar og býður upp á tilboð fyrir alla fjölskylduna. Á Skógum er líka að finna Húsasafn og Samgöngusafn, skemmtun og fræðsla fyrir alla og ratleikur fyrir fróðleiksfús börn á öllum aldri.

Góður sumarhiti á Hvolsvelli í dag

Fengum senda þessa góðu mynd frá íbúa á Hvolsvelli rétt í þessu, hitiamælir sem sýnir um 20 stiga hita í forsælu. Helgin lofar góðu í Rangárþingi eystra - fullt af tjaldsvæðum og afþreyingu fyrir alla. Góða helgi

Björn og Rut á Kvoslæk hljóta afreksbikar Fljótshlíðinga árið 2020

Björn Bjarnasson og Rut Ingólfsdóttir á Kvoslæk í Fljótshlíð voru verðlaunuð á 17. júní hátíðarhöldunum í Goðalandi fyrir framlag þeirra til menningarmála. Þau tóku við afreksbikar Búnaðafélags Fljótshlíðar fyrir árið 2020. Þau hafa staðið fyrir fjölda menningarviðburða á Kvoslæk síðast liðin ár og auðgað líf íbúa og gesta með fróðlegum erindum og listviðburðum. Næsti viðburður í Hlöðunni á Kvoslæk verður 21. júní, en þá flytja systurnar Signý og Þóra Fríða Sæmundsdætur íslensk og erlend lög m.a. eftir Ingibjörgu Sigurðardóttur frá Bjálmholti í Rangárvallasýslu.

Fljótshlíðarbændur græða upp Fljótshlíðarafrétt

Í byrjun júní fóru Fljótshlíðarbændur í árlega vorferð inn á Fljótshlíðarafrétt. Þetta hafa þeir gert frá árinu 1971 og grætt upp stórt landsvæði, en þar er unnið samkvæmt landbótaáætlun. Upprekstarfélagið í Fljótshlíð hlaut Landgræðsluverðlaunin árið 2015 fyrir áratuga uppgræðslustarf og uppgræðslu á um 400 ha svæði. Í dag er verið að vinna með aðra 400 ha og er þátttaka bænda ávallt góð. Svæðið er einnig vinsælt útivistasvæði bæði sumar og vetur. Þaðan er stutt inn á Suðurhálendið. Rangárþing eystra hefur stutt við verkefnið til fjölda ára . Á myndunum má sjá bændur sem fóru í ferðina í byjun júní. Myndir Kristinn Jónsson.

Visit Hvolsvöllur er ný heimasíða fyrir ferðaþjónustu í Rangárþingi eystra

Sveitarstjórn Rangárþings eystra samþykkti í vor að bregðast við því ástandi sem Covid -19 hefur á ferðaþjónstugreinina í sveitarfélaginu með því að hrinda í framkvæmd ferðamálstefnu sveitarfélagsins af miklum krafti. Sérstök áhersla er lögð á tvo þætti stefnunar þ.e. aðgengi, fegrun og fjölgun áfangastaða og markaðs- og kynningarvinna fyrir greinina. Í sveitarfélaginu eru gríðarlega margir og fjölbreyttir áfangastaðir allt frá svartri fjöru í Landeyjum að jöklum, fossum, hellum og Suðurhálendinu. Auk þess er einnn merkasti menningararfur landsins er að finna á Byggðasafninu á Skógum, en þar er auk byggðasafnsins, húsa- og samgöngusafn. Rangárþing eystra er gullnáma fyrir náttúru unnendur og viljum við með nýrri heimasíðu (visithvolsvollur.is) draga fram það helsta sem sveitarfélagið hefur upp á að bjóða. Í sveitarfélaginu er mikill fjöldi af ferðaþjónustufyrirtækjum sem bjóða nú upp á skemmtileg tilboð í afþreyingu, gistingu og mat, auk þess sem sum þeirra hafa sérsniðið tilboð og þjónustu fyrir Íslendinga. Á síðunni er mikið magn af upplýsingum þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Visithvolsvollur.is, nýja heimasíða fyrir ferðaþjónustu í Rangárþingi eystra, var opnuð formlega á fundi sveitarstjórnar í gær þann 15. júní 2020.

Starfsfólk Kirkjuhvols á toppi Eyjafjallajökuls

Árleg vorferð starfsfólks á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Kirkjuhvoli á Hvolsvelli var farin s.l. miðvikudag í sól og blíðu. Farið var með South Coast Adventure ferðaskipuleggjendum á Hvolsvelli og var farartækið þrír ofurjeppar. Lagt var af stað frá Hvolsvelli og lá leiðin beint upp á Eyjafjallajökul þar sem allir nutu útsýnisins sem er einstakt í svona góðu veðri. Ferðanefndin bauð upp á gott nesti á toppi jökulsins, við Goðastein, sem er nauðsynlegt í svona ferð. Af toppi Eyjafjallajökuls var keyrt inn í Þórsmörk, þar var grillað, gengið um og spilað eins og lög gera ráð fyrir á þessum merka og fallega stað. Keyrt var til baka um kvöldið og allt starfsfólk endurnært og ánægt með ferðina.

Í Rangárþingi eystra eru sex félagsheimili

Sveitarfélagið Rangárþing eystra varð til þann 9. júní árið 2002. Þá sameinuðust sex hreppar í austanverðri Rangárvallarsýslu í eitt sveitarfélag; Hvolhreppur, Fljótshlíðarhreppur, Austur-Landeyjahreppur, Vestur-Landeyjahreppur, Austur-Eyjafjallahreppur og Vestur-Eyjafjallahreppur. Hvert þessarar sveitarfélaga átti sitt félagsheimili sem rann inn í hið nýja sveitarfélag, Rangárþing eystra. Gera má ráð fyrir því að það sé met á landsvísu en flest sveitarfélög eiga eitt félagsheimili þó að til séu sveitarfélög sem eiga ekkert og önnur sem eiga fleiri en eitt. Sum félagsheimila í Rangárþingi eystra hafa fengið meira hlutverk en að sinna samfélagslegum verkefnum og eru þá hlutverkin oftast tengd ferðaþjónustu á einhvern hátt. Rangárþing eystra leigir út félagsheimlin fyrir stærri viðburði eins og fyrir stórar fundi, ráðstefnur, ættarmót, jarðafarir veislur eins og fermingar og afmæli. En einnig fara þar fram samfélagslegir viðburðir eins og 17. júní hátíðarhöld og þorrablót. Oft er talað um að félagsheimilin sem hjartað í hverju samfélagi og við erum rík að eiga sex slík heimili. Skrifstofa Rangárþings eystra gefur upplýsingar um félagsheimilin og einnig má finna upplýsingar um þau á heimasíðu sveitarfélagsins.