Gengið á Þríhyrning

Fjallgöngur eru afar vinsælar um þessar mundir og í Rangárþingi eystra er fjöldi tinda sem hægt er að ganga á, bæði fyrir reynda og óreynda göngumenn. Fimmvörðuháls, ein vinsælasta gönguleið landsins, er einmitt í sveitarfélaginu en stöðugar ferðir hafa verið yfir hálsinn í sumar.

Ein af okkar bestu fjallgönguleiðum er upp á Þríhyrning. Þríhyrningur er um 18 km frá Hvolsvelli og er 675 metrar á hæð með gott útsýni til allra átta. Fjallið dregur nafn sitt af þremur hornum og á milli þeirra er dalur sem heitir Flosadalur. Segir í Njáls sögu að þar hafi Flosi á Svínafelli og brennumenn falið sig eftir Njálsbrennuna. Í fjallinu framanverðu eru tvö hamragil, Katrínargil og Tómagil.

Hvernig á að fara: Fljótshlíðarvegurinn (261) er ekinn að Tumastöðum en þar er keyrt upp þangað til komið er að Fiská. Hjá Fiská er svo beygt til hægri upp á grasbala og hefst gangan þaðan. Gönguleiðin liggur því sem næst beint til austurs upp á syðri hrygg/hálsa Þríhyrnings. Þegar þangað er komið er haldið sem leið liggur upp á fjallið. Þegar upp er komið má sjá þrjá toppa, tveir þeir eru kleifir flestum en sá þriðji, hæsti (675 m.y.s.) er eingöngu kleifur mjög vönum einstaklingum. Eðlilegt er að gefa sér tvo til þrjá tíma í fjallgönguna. 

Umfjöllun um Þríhyrning á heimasíðu Kötlu jarðvangs.

Umfjöllun um Þríhyrning á gönguleiðir.is

Magnús Ragnarsson á Hvolsvelli er vanur göngumaður og gerði sér ferð upp á miðtind Þríhyrnings þar sem hann náði þessum góðu myndum.