Fréttir

Lilja Einarsdóttir sveitarstjóri horfir til framtíðar í nýju viðtali í Morgunblaðinu

Lilja Einarsdóttir sveitarstjóri Rangárþings eystra er í ítarlegu viðtali í Morgunblaðinu sem kom í út í gær, mánudaginn 29. júní. Þar fer hún yfir þær áskoranir og verkefni sem sveitarfélagið stendur frammi fyrir í kjölfar Covid-19. Hún segir einnig frá þeirri framtíðarsýn að nýta þau tækifæri og auðlindir sem sveitarfélagið býður upp á m.a. í tengslum við nýsköpun og að gera sveitarfélagið að gæða búsetukosti fyrir ungt fólk sem að hennar mati er framtíðin.

Ísólfur Gylfi fræðir landann um hvað Rangárþing eystra hefur uppá að bjóða

Áhugavert og fræðandi viðtal við Ísólf Gylfa Pálmason, fyrrverandi sveitarstjóra, í kynningarblaði Fréttablaðsins "Ísland komdu með" sem kom út laugardaginn 27. júní síðastliðinn. Það eru fáir sem þekkja sveitarfélagið okkar fallega eins vel og Ísólfur Gylfi, enda á hann ekki í vandræðum með að telja upp nokkrar af helstu perlum Rangárþings eystra og áfangastaði sem enginn má láta fram hjá sér fara.

Ræturnar toga Ómar Úlf heim á Hvolsvöll og í sveitina

Skemmtilegt viðtal við Ómar Úlf Eyþórsson Hvolsvelling og útvarpsmann. Hann ólst upp á Hvolsvelli og býr í dag í Kópavogi, en ræturnar toga hann heim og í dag á hann einnig hús á Hvolsvelli og er þar eins mikið og hann getur. Ómar er duglegur að njóta náttúrunnar sem er allt í kring og segir hann hér frá skemmtilegum bernskuminningum og góðum hugmyndum fyrir ferðalanga sem heimsækja Rangárþing eystra og Hvolsvöll.

Rangárþing eystra er nú Heilsueflandi samfélag

Í mörg ár hefur Heilsuefling verið hluti af stefnu stjórnvalda í Rangárþingi eystra og fjölmörg skref stigin í þá átt. Hvolsskóli og Leikskólinn Örk hófu innleiðingu Heilsueflandi skóla árið 2016 og stendur sú innleiðing enn yfir enda um langtímaverkefni að ræða. Rangárþing eystra hefur til margra ára stutt við íþróttastarfsemi og verið með samstarfssamninga við íþróttafélög í sveitarfélaginu sem hefur verið afar farsælt og skapað tækifæri fyrir börn að stunda fjölmargar íþóttagreinar. Mörg heilsueflandi verefni eru í sveitarfélaginu fyrir alla aldurshópa og má þar nefna 10 tinda verkefni Hvolsskóla, þar sem nemendur ganga á eitt fjall á ári alla grunnskólagögnuna, íþróttadaginn á Leikskólanum Örk þar sem allir taka þátt, nemendur og kennarar, hreyfingu fyrir aldurshópinn 60+ svo fátt eitt sé nefnt. Rangárþing eystra býður uppá mjög góða aðstöðu til alhliða þróttaiðkunar sem svo sem íþróttamiðstöð, líkamsræktarsal, sundlaug, heilsustíg, folfvöll o.fl.. Einnig er um þessar mundir unnið að nýju deiliskipulagi fyrir skóla og íþóttasvæði þar sem mjög metnaðarfullar hugmyndir til framtíðar eru hafðar að leiðarljósi. Nú í morgun var svo stigið það framfaraskref að formgera heilsueflandi aðgerðir með því að undirrita samning við Embætti landlæknis um Heilsueflandi samfélag. Heilsueflandi samfélag er samfélag þar sem tekið er mið af heilsu og vellíðan allra íbúa í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum. Þar er unnið markvisst lýðheilsustarf með lýðheilsuvísa, gátlista HSAM og viðeigandi gögn til að meta stöðuna með tilliti til íbúa á öllum æviskeiðum og forgangsraða í samræmi við þá greiningu. Unnið er heildstætt með áhrifaþætti heilbrigðis og er meginmarkmið starfsins að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa í Rangárþingi eystra. Með innleiðingu Heilsueflandi samfélags vinna samfélög að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Á meðfylgjandi myndum má sjá Lilju Einarsdóttur, sveitarstjóra og Ölmu Möller, landlækni undirrita samninginn. Á bak við þær stendur flottur hópur krakka úr leikskólanum Örk sem söng 2 lög við athöfnina.

Ungmennin fögnuðu góðri vinnu í Tungu- og Tumastaðaskógi

Í lok síðust viku komu saman öll ungmenni sem hafa unnið við fegrun og endurbætur í Tungu- og Tumastaðaskógi í Fljótshlíð í sumar og grilluðu. Tilefnið var að verkefnin í skógunum var að ljúka, en þau hafa staðið sig einstaklega vel og hafa grisjað og hreinsað brotnar greinar og séð um að kurla það líka. Þau lögðu hátt í 2 km af kurli í göngu og hjólastíga. Búið er að slá flatir og setja þar bekki og borð. Eldstæði var hlaðið þar sem hægt er að grilla, vatnslögn var lögð að salernishúsi og komið var upp vatnskrana fyrir neysluvatn. Bekkir, gerðir úr timbri úr skóginum, eru á megingönguleiðinni þar sem gott er að sitja og hlusta á lífið í skóginum og finna ilminn af trjánum. Aðgengi að svæðinu hefur verið bætt með stækkun bílastæða. Ungmennin prófuðu hjólaleiðirnar sem eru stikaðar og merktar og allir ánægðir með afraksturinn. Samstarf hefur verið við Skógræktina við þessa vinnu og er nú unnið að nýju yfirlitskorti fyrir svæðið allt.

Ný 25 metra löng göngubrú yfir Krossá í Þórsmörk

Ferðafélag Íslands hefur tekið í notkun nýja göngubrú yfir Krossá. Göngubrúin er 25 metra löng og á hjólum. Stefán Jökull Jakobsson, umsjónarmaður skála, segir að brúin sé kranabóma og smíðuð á vörubílahásingar svo hægt sé að færa hana eftir þörfum þar sem Krossá er breytileg. Hann bendir fólki á að nú gæti gestir sem ekki treystu sér á bílum yfir Krossá lagt bílunum við Álfakirkju og farið fótgangandi yfir í Langadal.

Fjölskyldumiði á Skógasafn í allt sumar

Skógasafnið á Skógum tekur vel á móti fjölskyldum í allt sumar og býður upp á tilboð fyrir alla fjölskylduna. Á Skógum er líka að finna Húsasafn og Samgöngusafn, skemmtun og fræðsla fyrir alla og ratleikur fyrir fróðleiksfús börn á öllum aldri.

Björn og Rut á Kvoslæk hljóta afreksbikar Fljótshlíðinga árið 2020

Björn Bjarnasson og Rut Ingólfsdóttir á Kvoslæk í Fljótshlíð voru verðlaunuð á 17. júní hátíðarhöldunum í Goðalandi fyrir framlag þeirra til menningarmála. Þau tóku við afreksbikar Búnaðafélags Fljótshlíðar fyrir árið 2020. Þau hafa staðið fyrir fjölda menningarviðburða á Kvoslæk síðast liðin ár og auðgað líf íbúa og gesta með fróðlegum erindum og listviðburðum. Næsti viðburður í Hlöðunni á Kvoslæk verður 21. júní, en þá flytja systurnar Signý og Þóra Fríða Sæmundsdætur íslensk og erlend lög m.a. eftir Ingibjörgu Sigurðardóttur frá Bjálmholti í Rangárvallasýslu.

Fljótshlíðarbændur græða upp Fljótshlíðarafrétt

Í byrjun júní fóru Fljótshlíðarbændur í árlega vorferð inn á Fljótshlíðarafrétt. Þetta hafa þeir gert frá árinu 1971 og grætt upp stórt landsvæði, en þar er unnið samkvæmt landbótaáætlun. Upprekstarfélagið í Fljótshlíð hlaut Landgræðsluverðlaunin árið 2015 fyrir áratuga uppgræðslustarf og uppgræðslu á um 400 ha svæði. Í dag er verið að vinna með aðra 400 ha og er þátttaka bænda ávallt góð. Svæðið er einnig vinsælt útivistasvæði bæði sumar og vetur. Þaðan er stutt inn á Suðurhálendið. Rangárþing eystra hefur stutt við verkefnið til fjölda ára . Á myndunum má sjá bændur sem fóru í ferðina í byjun júní. Myndir Kristinn Jónsson.

Visit Hvolsvöllur er ný heimasíða fyrir ferðaþjónustu í Rangárþingi eystra

Sveitarstjórn Rangárþings eystra samþykkti í vor að bregðast við því ástandi sem Covid -19 hefur á ferðaþjónstugreinina í sveitarfélaginu með því að hrinda í framkvæmd ferðamálstefnu sveitarfélagsins af miklum krafti. Sérstök áhersla er lögð á tvo þætti stefnunar þ.e. aðgengi, fegrun og fjölgun áfangastaða og markaðs- og kynningarvinna fyrir greinina. Í sveitarfélaginu eru gríðarlega margir og fjölbreyttir áfangastaðir allt frá svartri fjöru í Landeyjum að jöklum, fossum, hellum og Suðurhálendinu. Auk þess er einnn merkasti menningararfur landsins er að finna á Byggðasafninu á Skógum, en þar er auk byggðasafnsins, húsa- og samgöngusafn. Rangárþing eystra er gullnáma fyrir náttúru unnendur og viljum við með nýrri heimasíðu (visithvolsvollur.is) draga fram það helsta sem sveitarfélagið hefur upp á að bjóða. Í sveitarfélaginu er mikill fjöldi af ferðaþjónustufyrirtækjum sem bjóða nú upp á skemmtileg tilboð í afþreyingu, gistingu og mat, auk þess sem sum þeirra hafa sérsniðið tilboð og þjónustu fyrir Íslendinga. Á síðunni er mikið magn af upplýsingum þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Visithvolsvollur.is, nýja heimasíða fyrir ferðaþjónustu í Rangárþingi eystra, var opnuð formlega á fundi sveitarstjórnar í gær þann 15. júní 2020.