Áður óbirt kvæði Tómasar Guðmundssonar flutt í Múlakoti

Á afmælishátíð vegna 150 ára afmælis Guðbjargar Þorleifsdóttur í Múlakoti þann 26. júlí sl. var flutt áður óbirt kvæði eftir Tómas Guðmundsson. Magnús Haraldsson á Hvolsvelli flutti kvæðið með glæsibrag en það var samið sem Gullbrúðkaupskveðja til frú Guðbjargar og Túbals í Múlakoti 28.júní 1943.

Á heimasíðu Gamla bæjarins í Múlakoti má finna söguna af því hvernig það kom til að ljóðið var flutt á afmælishátíðinni. 

Fjallað var um fyrirhugaða hátíð víða, m.a. í Bændablaðinu og sú frétt hafði heldur betur óvæntar og ómetanlegar afleiðingar. Guðrún Ásgeirsdóttir hefur samband við ábúendur í Múlakoti og segir að þau hjónin hafa undir höndum kvæði sem tengdafaðir hennar, Tómas Guðmundsson, hafði ort sem gullbrúðkaupskveðju til Guðbjargar og Túbals. Til að gera langa sögu stutta komu þau Guðrún og maður hennar, Guðmundur Tómasson, komu degi fyrir hátíðina og afhentu sem gjöf til staðarins eiginhandar-uppskrift Tómasar af kvæðinu. 

Hér má lesa kvæðið.