Hellar í Rangárþingi eystra

Eins og flestir hafa tekið eftir hefur viðburðum í sveitarfélaginu fækkað vegna hertari sóttvarnar- og samkomureglna. En það breytir því ekki að vel er hægt að gera sér glaðan dag með að stunda útivist af ýmsu tagi í Rangárþingi eystra. Til dæmis væri hægt að taka dag í hellaskoðun en í sveitarfélaginu eru margvíslegir hellar sem gaman er að skoða.

Í landi Efra-Hvols má finna Efra-Hvolshella en það eru þrír manngerðir hellar sem kallast einu nafni Efra-Hvolshellar. Tveir hellanna eru samtengdir með göngum og nefnast þeir Efsti hellir og Miðhellir. Sá þriðji stendur stakur 20-30 metrum sunnar og nefnist Stóri hellir. Hann er um 42 metrar á lengd, og er talinn næstlengsti manngerði hellir á Íslandi. Ekki hefur þó verið hægt að komast inn í nema einn þriðja af honum því fyrir um 90 árum hrundi loftopið saman og mold fyllti göngin. Ekki er talin nein hætta á frekara hruni. 

Undir Eyjafjöllum eru tvennir hellar sem báðir eru í umsjón Minjastofnunar:

Steinahellir hefur verið notaður fyrir sauðfé af Steinabændum öldum saman og árið 1818 var hellirinn settur þingstaður Eyfellinga en þingborðið úr hellinum er nú varðveitt í Skógasafni. Burkni vex í hellisþaki Steinahellis og herma sögur að ekki megi slíta upp burknann því þá sé ólánið víst. Steinahellir var friðlýstur árið 1975 og árið 2015 var þil hellisins endurgert. Meðfylgjandi mynd er úr Steinahelli.

Rútshellir er einnig friðlýstur hellir og er af mörgum talin elstu manngerðu hýbýli á landinu. Fyrir framan hellirinn er fjárhús frá fyrri hluta síðustu aldar en áður en það var byggt var hellirinn lokaður við hellismunnann með grjóthleðslu og timburþili. Gengið er inn eftir fjárhúsunum og þá er komið inn í aðalhellinn. Hann er rúmlega 15 metra langur og um það bil 2,5 metra hár að jafnaði. Mest breidd á aðalhellinum er um 5 metrar. Inni í aðalhellinum eru ýmis merki um verk manna; þar má finna í gólfi holur sem benda til að þar hefi verið tréstoðir og á hellisveggjum eru berghöld og bitaför víða. 

Teikning af Rútshelli úr Árbók Hins íslenzka fornleifafélags frá 1995

Hér má finna umfjallanir um nokkra fleiri hella í sveitarfélaginu.