Nátttúrperlan og útivistarparadísin Skógar undir Eyjafjöllum

Skógafoss undir Eyjafjöllum er einn þekktasti og fallegasti foss landsins, en á Skógum er líka svo mikið meira sem kemur skemmtilega á óvart. Þar eru margar faldar náttúruperlur, afþreying og þjónusta sem vert er að skoða og upplifa, eins og t.d. Völvuskógur, fjöldi fossa í Skógaá og Skógaárgljúfri, Skógasafn, Kvernufoss, fjöldin allur af gisti-, veitinga- og afþreyingamöguleikum. Hér ættu svo sannarlega allir að finna eitthvað við sitt hæfi.
 
Völvuskógur er staðsettur rétt fyrir ofan gamla héraðsskólann á Skógum, en það voru nemendur og kennarar við skólann sem hófu árið 1950 uppgræðslu og skógrækt á þessu svæði. Enn koma nemendur saman til að gróðursetja og grisja og er Völvuskógur því vaxandi.  Árið 2013 voru lagðir stígar og smíðaðar tröppur til að gera skóginn betur aðgengilegann almenningi. 
Þessa mynd af bogabrú í Völvuskógi tók Einar Gunnarsson.
 
Ef farið er uppá Skógaheiði, sem er fyrsti áfangi á gönguleiðinni yfir Fimmvörðuháls, er að finna fjölda fallegra fossa. Í bók Sigurðar Sigurðarsonar ,,Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls“, sem kom fyrst út árið 2002 og svo aftur árið 2012, kemur fram að fossarnir í Skógaá og Skógaárgljúfri eru samtals 37 og ná langleiðina að Fimmvörðuskála. Fossarnir eiga ekki allir nafn en þeir eru hver öðrum fallegri og vel þess virði að ganga upp á heiðina til að skoða þá. Í bók Sigurðar koma fram nöfn á fossunum sem eru þekkt og gaman er að hafa hana til hliðsjónar þegar gengið er upp með ánni.
 
Flestir landsmenn þekkja svo Byggðasafnið á Skógum, en það sem kannski færri vita er að það er einungis einn af þremur hlutum Skógasafns og er þar að finna einn merkasta menningararf okkar Íslendinga. Auk Byggðasafnsins er þar húsasafn, sem er utandyra, og samgöngusafn sem er einstaklega skemmtilegt að skoða. Í sumar er fjölskyldutilboð á Skógasafni.
 
Skammt frá safninu er enn ein náttúruperlan: Kvernufoss hafa ekki margir skoðað en fossinn er í um 20-30 mínútna göngufjarlægð frá Byggðasafninu. Gangan að fossinum er falleg og ekki síðri á leiðinni til baka með útsýni til Vestmannaeyja.
 
Á Skógum er, eins og áður hefur verið nefnt, úrval af þjónustu og afþreyingu í boði. Hér er auk tjaldsvæðis hægt að fá góða gistingu á hosteli, gistiheimili og hóteli. Á þessum stöðum eru líka veitingastaðir og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Á Skógum er líka hestaleiga og eru þau með góð tilboð í allt sumar. Hestaleigan er fjölskyldurekin og hafa þau starfað í um 30 ár, þeirra sérkenni eru einstaklega barnvænir og skapgóðir hestar sem henta öllum.
 
Laugardaginn 18. júlí næstkomandi verður svo hin árlega jazzhátíð Jazz undir fjöllum haldin á Skógum í 17. sinn. Þetta er eitthvað sem alvöru tónlistarunnendur mega ekki láta fram hjá sér fara. Meiri upplýsingar um jazzhátíðina er hægt að finna í viðburðardagatalinu hér á visithvolsvollur.is eða inná heimasíðu Skógasafns.