Njálurefillinn á Hvolsvelli fær 25 milljóna króna styrk til að setja refilinn í varanlegt sýningarhúsnæði

Ríkisstjórn Íslands samþykkti í dag að veita Rangárþingi eystra 25 milljónir króna af ráðstöfunarfé sínu til að koma Njálureflinum á Hvolsvelli í varanlegt sýningarhúsnæði. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður við að hanna og koma sýningunni upp sé um 50 milljónir. 

Verkefnið hófst árið 2012 en það voru þær Christina M. Bengtsson og Gunnhildur E. Kristjánsdóttir sem hófu verkefnið í samstarfi við sveitarfélagið og fleiri aðila. Hingað til hefur refillinn haft aðstöðu í hluta af húsnæði Sögusetursins á Hvolsvelli sem kallast Refilstofan. Refillinn er saumaður með völdu íslensku ullargarni sem er sérstaklega jurtalitað fyrir verkefnið, refilsaumur er forn útsaumur sem stundaður var á Víkingaöld. Saumaskapurinn hefur verið að mestu framkvæmdur af íbúum í sveitarfélaginu en auk þeirra hafa um 2000 manns saumað í refilinn með leiðsögn. Kristín Ragna Gunnarsdóttir, teiknari, listamaður og bókmenntafræðingur er hönnuður Njálurefilsins.

Njálurefilinn verður 90 metra langur þegar búið verður að sauma hann. Í dag á aðeins eftir að sauma nokkra sentimetra og er mikil tilhlökkun að koma reflinum upp svo að gestir og íbúar geti skoðað hann í fullri lengd og notið þessa stórkostlega verkefnis sem hefur verið í vinnuferli í um 8 ár. Vilborg Arna Gissurardóttir tók fyrstu sporin í Njálurefillinn 2. febrúar árið 2013 við hátíðlega athöfn í Sögusetrinu. 

Njálurefilinn hlaut Menntaverðlaun Suðurlands árið 2014, í umsögninni kom eftirfarandi fram: 

Það er mat starfshópsins að verkefnið sé einstakt hvað varðar fræðslugildi. Sagan verður ljóslifandi í höndum þeirra sem að verkinu koma og gamla handverkið er endurborið. Það gildir um alla aldurshópa hvort sem þeir eru í skóla eða ekki, Íslendinga sem aðra, að þátttaka þeirra í verkefninu fræðir viðkomandi og hver þeirra eignast hlut í verkinu. Starfshópurinn telur að verkefnið megi kynna miklu víðar og vonast til þess að verðlaunin nýtist í það að einhverju leyti.

Gunnhildur tók á móti Menntaverðlaununum árið 2014 frá Ólafi Ragnari Grímssyni 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra heimsótti Njálurefilinn í vor og tók nokkur spor, sjá mynd. 

Hér má sjá heimasíðu Njálurefilsins 

https://njalurefill.is/um-refilinn