Síðasta saumsporið tekið í Njálurefilinn

Það var nú ekki laust við að það sæjust tár í augum nokkurra viðstaddra í Refilstofunni í gær en þá var síðasta saumsporið tekið í Njálurefilinn og reflinum síðan rúllað upp. Að endingu varð refillinn 91,1 meter. Eftir sjö ár og sjö mánuði er þetta mikla listaverk því klárt en það var Vilborg Arna Gissurardóttir, pólfari, sem tók fyrsta saumsporið í refilinn þann 2. febrúar 2013. Síðan þá hafa sporin verið mörg og fólk frá öllum heimshornum komið við í Refilstofunni, bæði til að skoða þetta merka verk en einnig til að að taka nokkur spor og geta því margir leitað að sínu spori þegar að refillinn verður búinn að fá fastan sýningarstað.

Það voru þær Gunnhildur E. Kristjánsdóttir og Christina M. Bengtson sem fóru af stað með verkefnið og áætluðu að vera um 10 ár að sauma. Tíminn var nú heldur styttri þar sem áhuginn var mikill og sérstaklega í heimabyggð. Í Refilstofunni myndaðist góður hópur sem saumaði í refilinn og naut samverunnar og því tók vinnan ekki eins langan tíma og áætlað var í fyrstu. Kristín Ragna Gunnarsdóttir, listamaður, er hönnuður verksins og var hún að sjálfsögðu viðstödd þegar síðustu metrunum var rúllað upp.

 

Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri Rangárþings eystra, færði hópnum í Refilstofunni blóm frá sveitarfélaginu og þakkaði fyrir þeirra framlag í þágu menningar í sveitarfélaginu.