Viðtal við Helga Jóhannesson, göngugarp og lögmann, um gönguleiðir í Rangárþingi eystra.

Helgi Jóhannesson, göngugarpur og lögmaður, hefur verið með annan fótinn í Fljótshlíð sl. 20 ár og þekkir því svæðið eins og lófann á sér. Í viðtali sem birtist í kynningarblaði Fréttablaðsins segir hann frá skemmtilegum gönguleiðum í sveitarfélaginu. Rangárþing eystra er paradís fyrir göngufólk og hægt að finna gönguleiðir fyrir alla aldurshópa. Helgi segir m.a. að það sé skemmtilegt að ganga á Þríhyrning og þau auki á skemmtunina að ganga á alla tinda fjallsins sem eru í raun fimm þrátt fyrir nafnið. Til að setja göngu á Þríhyrning í samhengi notar Helgi samlíkinguna að ferð upp fjallið sé svipuð að lengd og erfiðleikastigi eins og upp að Steini á Esjunni.

Hvolsvöllur er einungis um klukkustundar akstur frá Reykjavík og er því kjörinn áfangastaður, bæði fyrir þá sem hafa bara hug á að skreppa í rólegan en skemmtilegan dagstúr og fyrir þá sem vilja fara í lengra frí á svæði sem hefur upp á allt að bjóða.

Viðtalið má finna á bls. 8 í kynningarblaðinu ALLT sem fylgir með Fréttablaðinu 7. maí.