Moses Hightower - Búum til börn tónleikaröð

Tónleikar í Midgard Base Camp
 
Þegar fyrsta plata hljómsveitarinnar Moses Hightower, Búum til börn, kom út í júlí 2010 voru gagnrýnendur og hlustendur sammála um að hér kvæði við nýjan tón í íslenskri tónlist. Útsetningar, hljóðheimur og spilamennska sóttu óspart í sálartónlist 7. og 8. áratugar, en textar þóttu minna á íslenskt lopapeysupopp frá sama tímabili, ekki síst Spilverk þjóðanna. Í öllu falli var plötunni tekið fagnandi, og lögin „Vandratað“ og „Bílalest út úr bænum“ hljómuðu látlaust úr viðtækjum landsins. Í kjölfarið birtist platan á hinum og þessum listum yfir bestu plötur ársins, og sveitin fékk tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir plötu ársins og textahöfunda ársins.
 
Í tilefni þess að 11 ár eru liðin frá útgáfu plötunnar (gisp!) ætlar hljómsveitin að halda tónleika hringinn í kringum landið, skrýdd mörgum af sömu silkimjúku gestaflytjendunum og heiðruðu hana á plötunni: Óskar Guðjónsson leikur á sax, Samúel Jón Samúelsson á básúnu og Kjartan Hákonarson á trompet og flugelhorn, og bakraddir syngja Bryndís Jakobsdóttir og Rakel Sigurðardóttir.
 
Sannkallaðir sparitónleikar þar sem platan verður leikin í heild sinni, ásamt feikivel völdum öðrum lögum Mosesar, m.a. af nýjustu plötu þeirra, Lyftutónlist!