Drumbabót er á aurunum vestur af Auraseli í um 9 km fjarlægð frá Hvolsvelli. Á Drumbabót hafa alla síðustu öld verið að koma upp úr sandinum miklir trjábolir sem nú nýverið hafa verið rannsakaðir og eru taldir um 1.250 ára gamlir, eða frá því rétt fyrir landnám. Þeir eru allir í lífstöðu og því er talið að skógurinn hafi eyðst í hamfarahlaupi og það líklega komið úr Kötlu. Jeppa þarf til að komast að Drumbabót. Varast skal að hreyfa við minjum þarna.