Einhyrningur

Það er talsvert um að gengið sé á Einhyrning sem er mjög sérstætt móbergsfjall, 651 metrri á hæð. Fjallið er með sérkennileg horn, annað að norðan en hitt að sunnan. Þau sjást yfirleitt ekki bæði í einu nema þá helst ofan frá Kanastöðum í Landeyjum. Skepnan Einhyrningur er ekki ein þarna á svæðinu því stutt frá eru fjöllin Hestur og Meri og við rætur fjallsins er svo Hrútkollur. Hægt er að ganga upp á Einhyrning að sunnan og mótar fyrir göngustíg þegar ofar dregur. Að neðan má sjá gróðurtorfu sem farið er eftir og teygir hún sig upp snarbrattar skriður að klettabelti. Í því er skarð þar sem gengið er upp fyrir klettana og er haldið þaðan á toppinn. Toppurinn er ávalur og lausir steinar þar á móbergsklöpp og eru brúnirnar þverhníptar. Útsýni af toppnum er gott yfir í Eyjafjallajökul, Goðalandsjökul, Entujökul, Þórsmörk, Rjúpnafell, Mófell, Emstrur, Hattfell, Stórkonufell, Kaldaklofsfjöll og Torfajökul í fjarska. Þá sést vel yfir smalalönd Fljótshlíðinga, Þverána og Hellra en þar er hellisskúti sem hlaðið var fyrir og rúmaði 12 smala. Fjær eru Skiptingarhöfði og Stóra Grænafjall, síðan Lifrarfjöll, Kerhausar, Hitagilsbrúnir og Botn og yfir þessu gnæfir Tindfjallajökull með Ými og Ýmu ásamt Tindfjöllunum. Hægt er síðan að fara niður fjallið grasbrekkurnar að vestan, eða öfugt, fara upp þær og koma niður skarðið. Í smali tekur ekki nema tæpan klukkutíma að fara upp og niður aftur en ráðlegt er að ætla sér um tvo tíma í gönguna. À Einhyrningsflötum er gangnamannakofi í eigu Rangárþings eystra. Kofinn er leigður út. Hann heitir Bólstaður eins og bær Sighvats rauða er nam land á Einhyrningsmörk. Bílastæði eru við kofann og er lagt upp á fjallið frá honum. Mynd Kristinn Jónsson.