Eyjafjallajökull

Eyjafjallajökull er eldfjall sem rís upp í 1.677 metra hæð og blasir hvarvetna við á Suðurlandsundirlendinu; ein mesta höfuðprýði okkar Sunnlendinga. Eldstöðin gaus síðast árið 2010 en þar áður eru þekkt gos frá árunum 1612 og 1821. Gosið árið 2010 stóð yfir í 39 daga. Um var að ræða sprengigos í topp­gígn­um sem stóð sam­fellt til 22. maí 2010 eða í 39 daga. All­an þann tíma var sprengi­virkni í gígn­um og gjósku­mynd­un, mis­mik­il þó. Á tíma­bili rann einnig hraun til norðurs, að mestu und­ir jökli þótt ís­inn bráðnaði ofan af hraun­inu þegar frá leið. Fyrstu dag­ana fylgdu jök­ul­hlaup niður Markafljót og olli tjóni á landi, en með snöggum handtökum náðist að rjúfa þjóðveg 1 austan megin við Markafljótsbrú til að bjarga brúnni. Við eldgosið. Gígarnir tveir, Magni og Móði mynduðust í gosinu árið 2010 og er gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls að hluta til á nýja hrauninu sem rann frá þeim, Goðahraun. Á Eyjafjallajökli er Goðasteinn að norðan, 1.580 metrar, og Guðnasteinn að sunnan, 1.570 metrar, og hæstur er jökullinn á Hámundi, 1.677 metrar.

Þjóðsagan segir frá því að við kristnitökuna árið 1000 hafi Runólfur goði í Dal safnað saman öllum heiðnum líkneskjum er hann átti og farið með þau upp á jökul og komið þeim fyrir í helli undir kletti þeim er nú kallast Goðasteinn. Þá er einnig sagt frá því er þrír þrælar Rúts á Hrútafelli gerðu aðför að húsbónda sínum gegnum gatið í Rútshelli. Þeim mistókst aðförin og lögðu á flótta en Rútur elti þá uppi og náði þeim síðasta, er Guðni hét, ekki fyrr en uppi á jökli undir þeim kletti er nú heitir Guðnasteinn. Þekktar leiðir upp á jökulinn eru nokkrar. Fyrst má nefna að fara frá skálanum á Fimmvörðuhálsi og má ætla að það sé fljótfarnasta leiðin. Þá hefur verið gengið upp á jökul upp með skerjunum að vestan. Sú leið tekur allan daginn og er tæpast nema fyrir vana göngumenn. Þá er hægt að fara frá Skálabæjum og Þorvaldseyri en það eru enn erfiðari leiðir þar sem fjallið er mjög giljótt. Þá er einnig svipuð gönguleið frá Merkurbæjum. Vegslóði er upp Hamragarðaheiði og að vetrinum er dálítið um það að farið sé þar upp á vel búnum bílum og er hægt að komast alveg upp að Goðasteini. Þaðan hefur verið ekið niður að skálunum á Fimmvörðuhálsi og niður hjá Skógum. Jafnvel hefur verið ekið yfir Mýrdalsjökul og komið niður hjá Emstrum. Varasamt er að fara um jökulinn þar sem hann er víða mjög sprunginn. Mikilvægt er að fara varlega um svæðið og huga að leyfi landeiganda þar sem við á. Mynd: Guðlaug Svansdóttir.