Merkurkerið er inni í Merkurnesi fyrir innan Stóru-Mörk. Að því er hægt að komast á fólksbíl inn Þórsmerkurveg. Þetta er stórfagurt ker eða gil sem er hálffalið í fjalls- hlíðinni. Neðst er þröngt gljúfur sem Sauðá rennur um í hálfgerðum hamragöngum og helli. Sauðá og gilið eða sprungan sem hún rennur úr lætur lítið yfir sér séð frá veginum. Hér virðist því við fyrstu sýn lítill tilgangur að stoppa annar en sá að rétta úr sér og njóta útsýnisins. En sé gengið upp með ánni að gilkjaftinum vaknar forvitnin fljótt því áin bókstaflega hverfur inn í bergið. Sé þetta skoðað nánar kemur í ljós að áin rennur í gegnum stóra sprungu í fjallinu. Hluti af fjallshlíðinni hefur klofnað frá meginfjallinu og þannig myndast sprunga í gegnum hlíðina sem áin fellur eftir. Til þess að komast inn í hvilftina fyrir innan sprunguna, sem nefnist Merkurker, er annaðhvort að ganga yfir bergranann sem féll frá fjallinu eða að vaða ána í sprungunni sem er mun ævintýralegri og eftirminnilegri leið. Sprungan er fremur þröng og dimm og verður að vaða ána upp fyrir hné upp á móti straumi. Eftir því sem hinn endi sprungunnar nálgast birtir smátt og smátt og Merkurkerið opnast eins og nýr heimur. Innst úr Merkurkeri sunnanverðu blasir við djúpt hamragil sem nefnist Illagil. Norðan við það er áberandi gnípa er nefnist Burst og mun draga nafn af lögun sinni. Við göngum tilbaka yfir bergranann og virðum fyrir okkur hlíðina þar sem bergraninn klofnaði frá fjallinu. Maður einn frá Stóru-Mörk, Júlíus Einarsson að nafni, mun eitt sinn hafa stokkið þarna yfir er hann var að eltast við nokkrar rollur. Sá, sem verður það á að misstíga sig í því stökki, verður ekki til frásagnar og vonandi að enginn reyni að leika þetta eftir honum.