Múlakot Skógrækt ríkisins

Í Múlakoti í Fljótshlíð bjó Árni bóndi Einarsson. Hann var mikill skógræktarmaður og kemur mjög við sögu við friðun Þórsmerkur á fyrri hluta síðustu aldar. Það var hins vegar árið 1935 en þá voru einungis starfræktar þrjár gróðrarstöðvar í landinu sem framleiddu trjáplöntur. Þetta var engan veginn nóg og voru því fluttar inn plöntur, m.a. frá Danmörku. Einar E. Sæmundsen var þá skógarvörður á Suðurlandi og bauð Árni Skógræktinni kartöflugarð sinn undir græðireit endurgjaldslaust ef Skógræktin sæi um að girða svæðið af. Þessi gróðrarstöð var starfrækt fram undir árið 1950 en þá voru Tumastaðir komnir í gagnið sem stærsta uppeldisstöð trjáplantna í landinu. Margar trjátegundir eru í Múlakoti og í lundinum eru hæstu tré á Íslandi ásamt því að þar er einnig að finna hæstu tré einstakra tegunda. Vestast í lundinum hafa verið smíðaðar tröppur til að komast upp á klettana fyrir ofan og í skóginn. Gætið barnanna vel þegar upp er komið.

Um Skógræktina

Að Múlakoti var fyrsta gróðrarstöð Skógræktarinnar á Suðurlandi og er þar nú eitt elsta og fjölbreyttasta trjásafn Suðurlands. Í skóginum er að finna stórvaxin, gömul tré af ýmsum trjátegundum, sumum sjaldséðum. Auk græðireitsins, sem er í skjóli klettaveggjarins, tilheyrir þjóðskóginum u.þ.b. 13 ha svæði í brekkunni ofan kletts.

Múlakotsreiturinn var þriðja gróðrarstöð Skógræktarinnar á eftir stöðvunum á Hallormsstað og Vöglum og sú fyrsta á Suðurlandi. Árni Einarsson, bóndi í Múlakoti, „leigði“ Skógræktinni land undir gróðrarstöðina endurgjaldslaust. Gróðrarstöð var þó ekki rekin þar nema í rúm 10 ár því plöntuþörfin varð meiri en landrými í Múlakoti stóð undir. Úr varð að Skógræktin keypti jörðina Tumastaði í Fljótshlíð árið 1944 og stofnaði þar til gróðrarstöðvar en trjáplöntur voru seldar úr Múlakotsstöðinni fram undir 1950.

Skógræktin keypti Múlakotsreitinn, kvíabólið og brekkuna þar upp af árið 1990, alls um 13 ha lands.

Á árunum 1937-1939 var allmikið flutt inn af ungplöntum frá gróðrarstöðvum í Noregi og enduðu margar þeirra í Múlakoti. Þar á meðal var fyrsta sitkagrenið sem kom til Íslands, einnig fjallaþinur, álmur, askur, silfurreynir, gráreynir, gráelri, risablæösp, selja og viðja. Á stríðsárunum 1939-1945 varð sambandslaust við Noreg en sambönd mynduðust til Bandaríkjanna. Þaðan komu villiepli frá Alaska 1940 og fyrstu græðlingar alaskaaspar 1944. Fyrsta sáning lúpínu til landgræðslu var gerð á Þveráraurum skammt frá gróðrarstöðinni í Múlakoti 1945. Eftir það varð Múlakotsreiturinn og kvíabólið svokallað að safnreit fyrir ýmsar tegundir sem ekki var treystandi á að gætu lifað annars staðar. Með tímanum bættust því við sífellt fleiri tegundir.

Þjóðskóginn í Múlakoti má með réttu kalla trjásafn og þar er að finna hæstu einstöku tré landsins af ýmsum tegundum, þar á meðal hæsta álminn, hæstu hengibjörkina, hæstu alaskaöspina og hæstu blæöspina. Í skóginum er að finna stórvaxin, gömul tré af sjaldséðum trjátegundum, s.s. aski, álmi, blæösp, hengibjörk, hlyni, fjallaþini og gullregni.

Tilraunir voru gerðar með eplarækt í Múlakoti um 1950 en þær báru engan árangur og ekkert er eftir af eplatrjánum. Í apríl 1963 varð mikið hret eftir langvarandi hlýindi og í því kól aspirnar í Múlakoti illa. Þær voru allar felldar í kjölfarið. Aspirnar í Múlakoti, sem nú ná yfir 25 metra hæð, eru því rótarskot upphaflegu aspanna frá 1944 en aðeins er rétt að telja aldur núverandi stofna frá 1963. Mynd: Skógrækt ríkisins.