Nauthúsagil

Nauthúsagil er við veginn inn í Þórsmörk og er aðgengi að því nokkuð gott. Gilið er einstaklega fallegt og kannski ekki fyrir alla til að ganga það inn að fossi, en göngufólk má búast við því að blotna í fæturnar. Ef gengið er inn með gilinu að norðan stendur þar reynitré eitt mjög gamalt og gríðarstórt. Það vex utan í klettasyllu og er erfitt að komast að því. Fyrir neðan það er hyldýpisgljúfur og rennur Nauthúsaá um það. Á einhverra áratuga fresti er trjástofninn orðinn svo stór að hann hefur ekki næga rótfestu og fellur yfir gilbakkann hinum megin. Upp af rótinni vex svo nýr stofn. Nú má sjá a.m.k. sex gamla stofna sem liggja þarna yfir gilið og til eru sögur af mönnum sem hafa farið yfir gilið á stofnum sem eru ný fallnir. Nú eru þar fúnir stofnar. Líklega líða fá ár þar til að aðalstofninn, sem nú er, fellur. Þetta tré er líklega formóðir flestra reynitrjáa í landinu. Til eru heimildir um að Guðbjörg Þorleifsdóttir í Múlakoti hafi fengið sáðplöntur af þessu tré er hún var að koma upp sínum fræga garði. Af þessum trjám og afkomendum þeirra hefur síðan Skógrækt ríkisins í Múlakoti og síðan á Tumastöðum árlega tekið ber í uppeldi. Ef gengið er inn með gilinu er komið að 3-4 metra háum fossi. Undir honum er djúpur hylur sem fyllir á milli hamranna. Hægt er að klifra með hylnum og upp fossinn. Þetta er mikið ævintýri og ósjaldan dettur einhver og lendir þá í hylnum og blotnar í gegn. Mynd: Sigrún Lóa Svansdóttir.