Stóri-Dímon

Í Stóri-Dímon koma saman mörk Austur-Landeyja, Fljótshlíðar og Vestur-Eyjafjalla. Stóri-Dímon á sér lítinn bróður sem er Litli-Dímon og liggur austan megin við Markafljótið. Nöfnin eru talin koma úr latínu og merkja tvífjöll eða tveir eins. Þá er einnig sagt að orðið merki heysáta og vissulega minnir Dímon á heysátu á bleikum ökrunum. Á toppi Stóra-Dímon er einstakt útsýni yfir Markafljótsaurana allt frá Þórsmörk niður að sjó og til Vestmannaeyja. Við fjallið fóru fram húskarlavíg Hallgerðar Langbrók og Bergþóru í Njáls sögu. Þar segir frá vígi Kols, verkstjóra hjá Gunnari á Hlíðarenda, en hann vó Svart sem var húskarl Njáls á Bergþórshvoli. Hann var þar í skógarhöggi í Rauðuskriðum, eins og fjallið hét þá. Stóri-Dímon er 178 metra hátt fjall sem er fljótlegt og hressandi að ganga upp á, en nokkuð bratt.

Stóri-Dímon er móbergseyja sem hefur myndast við eldgos undir jökli eða í sjó. Eyjan stendur í mynni Markarfljótsdals upp af aurum Markarfljóts. Stóri-Dímon er rúst af móbergseyju sömu gerðar og til dæmis Pétursey, Dyrhólaey og Hjörleifshöfði. Eyjar þessar hafa ýmist myndast í sjó eða undir jökli, en Stóri-Dímon hefur rofist mjög af Markarfljóti sem og jökulhlaupum. Norðan í eynni er sérlega fagurt stuðlaberg og nokkuð fuglalíf.