Þórsmörk

Í Rangárþingi eystra er ein helsta náttúruperla landsins en það er Þórsmörkin og afréttirnir í nágrenni hennar með Eyjafjallajökul á aðra hönd og Goðalandsjökul/Mýrdalsjökul á hina. Þórsmerkursvæðið er mjög giljótt, kjarri vaxið upp í brekkur og mjög fjölbreytilegt. Ótal margir áhugaverðir staðir eru á þessu svæði, s.s. Snorraríki, Sóttarhellir, Álfakirkja, Stakkholtsgjá og steinbogi í Stóra Enda. Í Þórsmörk eru fjöldamargar gönguleiðir, ýmist um náttúrulega skóga, á fjallstinda, inn í gljúfur eða upp á jökul. Þórsmörkin er endastöð á einni vinsælustu gönguleið landsins, fjögurra daga gönguferð eftir „Laugaveginum" frá Landmannalaugum. Þá er Þórsmörkin og Goðaland endastöð ef gengið er yfir Fimmvörðuháls frá Skógum. Gönguleiðir verða ekki frekar tíundaðar hér en bent er á að skoða heimasíður ferðaþjónustaðila sem fara í Þórsmörk. Ekki er fært í Þórsmörk nema á stórum jeppum eða rútum og hafa skal í huga að litlar sakleysilegar ár geta breyst í stórfljót á nokkrum klukkutímum. Þrátt fyrir þessa farartálma er Þórsmerkursvæðið með vinsælli ferðamannastöðum á landinu. Varhugaverðustu árnar á leið inn úr eru Steinholtsá og getur hún verið slæm því hún er oft mjög skorin. Alræmdust er samt Krossá og hefur hún gegnum tíðina valdið mestu tjóni. Þórsmörk, Almenningar og afréttir sunnan Krossár vestur að Jökultungum eru friðlýst sökum fjölbreytts og fagurs landslags. „Augu, skoðið ykkur mett".

 

Í Þórsmörk eru m.a. eftirtaldir þjónustuaðilar :

Volcano Trails

Útivist

Ferðafélag Íslands

Þjóðsögur úr Þórsmörk