Þorsteinslundur Fljótshlíð

Skógarlundur tileinkaður Þorsteini Erlingssyni, sem orti m.a. „Fyrr var oft í koti kátt", er rétt fyrir innan Hlíðarendakot. Þar er einnig stytta af honum, reist 1954, gerð af Nínu Sæmundsson frá Nikulásarhúsum. Lundurinn er merktur við Fljótshlíðarveg um 21 km frá Hvolsvelli.

Þorsteinslundur hefur laðað að sér fjölskyldufólk með börn en þarna er iðulega einstaklega gott veður enda liggur lundurinn í góðu skjóli fyrir norðan áttinni. Gott er að taka með sér nesti, leyfa börnunum að sulla aðeins í læknum og ganga upp að fossinum. Þar aðeins vestar í klettunum er hægt að klifra upp, fara í gegnum gat á klettinum og niður hinum megin. Sannkölluð paradís. Skógarlundurinn var gerður fyrir tilstuðlan Rangæingafélagsins í Reykjavík. Rangárþing eystra hefur undanfarin ár séð um lundinn. Mynd: Elísabet Lind.