Þríhyrningur

Þríhyrningur er í um 18 km fjarlægð frá Hvolsvelli. Ekið er upp hjá Tumastöðum og Vatnsdal, þegar komið er að Fiská er beygt til hægri upp að grasbala og hefst gangan þaðan upp á fjallið að suðvestan. Þar er hægt að leggja bílum og sjá upplýsingar á skilti. Ágæt leið upp hefur verið stikuð. Þríhyrningur er 678 metra hár. Vinsælt er að ganga upp á fjallið og þaðan er útsýni gott til allra átta. Fjallið dregur nafn sitt af þremur hornum og á milli þeirra er dalur sem heitir Flosadalur. Segir Njála að þar hafi Flosi á Svínafelli og brennumenn falið sig eftir brennuna á Bergþórshvoli. Í klettunum norðan megin í Þríhyrningi er hellir er nefnist Flosahellir. Mjög torvelt er að komast í hann. Til er þjóðsaga um þennan helli og er hún eitthvað á þessa leið: Eftir brennuna, er Flosi var í felum uppi á Þríhyrningi, ákvað hann að fela sjóð þann, er hann hafði meðferðis, fyrir eftirreiðarmönnum ef þeir næðu honum og faldi hann sjóðinn í hellinum. Löngu seinna ákváðu þrír menn að sækja þennan fjársjóð og gerðu leiðangur upp á Þríhyrning til að síga niður af brúninni og í hellinn. Sá, sem fór niður, komst hellinn og stóðst þar allt sem sagt hafði verið. Þar var kista ein rammgerð. Þegar hann opnaði hana var eigi annað í henni en gömul víðilauf og varð hann að vonum vonsvikinn eftir allt erfiðið. Tók hann nú samt eina lúku af laufi og setti í vasann til þess að sýna hinum. Er upp var komið sagði hann hinum hvernig farið hafði og héldu þeir allir niður af fjallinu, sneyptir, enda farið að rökkva. Er niður var komið rataði hönd hans í vasann og viti menn, hann var fullur af gullpeningum í stað laufsins. Glöddust þeir við þetta en vegna þessara tálsýna þorðu þeir ekki í hellinn aftur. Síðan er ekki vitað til þess að neinn hafi í hellinn komið. Í fjallinu framanverðu eru tvö gil, Katrínargil og Tómagil. Vanir göngumenn hlaupa þar upp á einni klukkustund en flestir taka sér líklega allt þrjá tíma í fjallgönguna. Útsýni af Þríhyrningi er stórbrotið og gaman er að hafa leiðsögumann með sem getur sagt frá sögu og náttúru svæðisins. Mynd: Guðlaug Svansdóttir.