Rútshellir

Rútshellir er í Hrútafelli (etv. Rútafell eða Hrútahellir) undir Eyjafjöllum, rétt áður en komið er á Skóga, 44 km frá Hvolsvelli. Þetta er heljar hellir og ofantil í honum er afhellir með það hátt til lofts, að eins og sjá má af holum í vegg, þá hefur einhvern tíman hefur verið sett upp í honum milligólf. Innst í þessum helli er silla, sem má ímynda sér að hafi verið svefnstaður manna. Þar fyrir ofan má sjá úthöggvinn kross. Í þessu bæli er gat niður í hellinn fyrir neðan og gæti það hafa verið gert til þess, að hitinn af skepnunum í neðri hellinum hafi leitað þar upp og yljað þeim er á sillunni sváfu.

Nasistar, vísindamenn SS, komu hingað til lands árið 1936 til að rannsaka og leita að gömlum minjum um víkinga. Þeir komu í Rútshelli og dvöldu þar nær allan tímann. Þeirra niðurstaða var að hellirinn hefði verið hof í heiðnum sið, þar væri blótsteinn með úthöggnum festingum til að binda dýrið sem skyldi fórnað, þar fundu þeir hlautbolla fyrir blóðið og þaðan rennu í gólfinuað skál sem gat tekið restina af blóðinu. Þá var og þar greip í gólfinu þar sem skurðgoðið hafði verið skorðað í.

Hellirinn er merktur af þjóðminjasafni Íslands og er friðlýstur.

Þjóðsaga er til af Rútshelli:

Sagan segir frá þrælum Rúts er hellirinn er skírður eftir, en þeir vildu vega hann. Bæli hans átti að hafa verið fyrir neðan umrætt gat og höfðu þeir gert gatið einhverju sinni er hann var úti og ætluðu þeir sér að leggja til hans með spjótum er hann kæmi til baka og legðist til hvílu. Hann kom heim og lagðist til svefns, en varð þeirra var og elti þá uppi og vóg, þeim síðasta er hét Guðni, náði hann upp á jökli við stein þann er heitið hefur síðan Guðnasteinn.