Steinahellir

Steinahellir er við hringveginn undir Eyjafjöllum, 36 km frá Hvolsvelli. Steinahellir var þingstaður Eyfellinga í 82 ár, frá 1820 - 1902. Hellirinn er af náttúrunnar hendi en var þó líklegast stækkaður af mannavöldum. Margar sögur eru til af Steinahelli, sögur af huldufólki og uppreisnum. Sólveig dóttir séra Páls Jónssonar frá Vestmannaeyjum átti að hafa séð hóp af fólki fyrir framan hellinn eitt sinn en þegar hún sagði föður sínum frá því sá hann ekkert þar sem hann var ekki skyggn.

Steinahellir hefur þó ekki einungis komið til nota sem bústaður huldufólks: Árið 1888 þurfti heimilisfólk á Steinum að leita skjóls í hellinum eftir grjóthrun mikið sem olli miklum skaða á bænum. Hann hefur þar að auki verið notaður sem fjárhús og vélageymsla. Áberandi er hve mikið af tófugrasi er í loftinu á hellinum, að slíta það kann víst ekki góðri lukku að stýra enda undir verndarvæng álfa.

Fyrir framan Steinahelli er Hellisvatn þar sem áður var talið að nykur héldi sig, illgjörn þjóðsagnarvera sem líkist hesti. Jón Árnason segir frá stúlku sem sá eitt sinn gráann hest við vatnið og batt hún styttuband sitt í hann. Hún tók svo eftir því að hófar og eyru hans sneru öfugt og bað hún þá Guð að hjálpa sér. Nykrar þola ekki að heyra Guð nefndan og stökk hann þá af stað í átt að vatninu. Hann komst þó ekki ofan í vegna styttubandsins en ekki kom fram hvað varð af nykrinum í framhaldinu.

Hjá hellinum gerðu Eyfellingar uppreisn árið 1858. Sýslumaður Rangæinga og Trampe stiftamtmaður skipuðu þá bændum að baða allt fé sitt gegn fjárkláða. Gripu Eyfellingar þá til vopna og ráku sýslumanninn að Hellisvatni fyrir framan hellinn í þeim tilgangi að baða sýslumanninn sjálfan. Varð Trampe þá skelkaður og dró tilskipunina til baka og riðu þeir sneyptir á brott, Eyfellingum til mikillar gleði.

Einnig er til saga af draugum við hellinn. Skip fórst undir Eyjafjöllum með 14 mönnum, enginn komst lífs af. Skipið rak í land og var dregið yfir ísilagða Holtsósina og geymt fyrir framan Steinahelli. Fjármenn sem sátu yfir fé upp undir fjalli sjáu skömmu seinna dauða skipshöfnina ganga meðfram skipinu og stóð þeim mikill uggur af. Stuttu eftir það reið bóndi nokkur utan af Rangárvöllum hjá hellinum í svartasta skammdegi. Hitti hann þá mann sem bauð bóndanum að setjast með þeim. Hann tekur vel í það og ríður með manninum, þó að að frísandi hestur hans hafi viljað annað. Koma þeir að skipinu og sér bóndinn 13 menn standandi í kringum það, óhugnarlegir í viðmóti. Man bóndi þá eftir skipsrekanum um haustið og þykist hann þekkja þá dauðu. Hann verður hræddur mjög og tekur til fótanna. Hann heyrir drauganna kveða vísu þessa á flóttanum:

„Gangslaus stendur gnoð í laut.
Gott er myrkrið rauða.
Halur fer með fjörvi braut.
Fár er vin þess dauða,
Fár er vin þess dauða.“

Bóndinn flúði að Steinum og reið aldrei einsamall um veg þennan aftur. Menn þóttust heyra brak og högg í skipinu eftir þetta en það var loks höggvið niður.

 

Burkni vex í hellisþaki Steinahellis. Sögur herma að ekki megi slíta upp burknann því þá sé ólánið víst. Bóndi á Steinum reif þar einhverju sinni upp burkna og hrapaði kýr hans fram af hellisberginu skömmu síðar. Önnur saga segir að ferðamaður einn hafi slitið upp burkna óafvitandi um álögin og misst heilsuna fáum árum síðar. Kenndi hann burknatínslunni um heilsutap sitt.

Steinahellir var friðlýstur af Þóri Magnússyni, þáverandi þjóðminjaverði, árið 1975. Steinahellir, líkt og aðrar friðlýstar menningarminjar, er í umsjá Minjastofnunar Íslands. Þil hellisins var endurgert á vegum Minjastofnunar haustið 2015, en þil var á hellinum a.m.k. á 19. öld.

Hellirinn er friðlýstur. Hann er líka lokaður almenningi vegna hættu á hruni.