Hvatning frá Heilsu-, íþrótta- og æskulýðsnefnd Rangárþings eystra

Við viljum hvetja íbúa Rangárþings eystra að nýta sér alla þá fjölmörgu möguleika sem í boði eru hér í sveitarfélaginu og nágrenni til útiveru annað hvort einir eða með fjölskyldu og vinum, sérstaklega eins og ástandið er í þjóðfélaginu þessa dagana.

Við íþróttahúsið er Folfvöllur sem tilvalið er að nýta sér. Folf er spilað líkt og hefðbundið golf nema með frisbídiskum. Frisbídiskum er kastað í þar til gerðar kröfur. Í kringum fótboltavöllinn á Hvolsvelli og við íþróttahúisð eru 9 körfur sem mynda Folfhring og því upplagt að njóta veðurblíðunnar og reyna sig í Folfi. Hægt er fá lánaða diska og skorkort endurgjaldslaust í íþróttahúsinu á Hvolsvelli.

Heilsustígurinn kemur sterkur inn þegar líkamsræktin er lokuð eins og um þessar mundir. Heilustígurinn liggur um Hvolsvöll og er um 4,2 km að lengd. Við stíginn eru 15 stöðvar með mismunandi tækjum og æfingum. Fyrsta stöðin er við íþróttamiðstöðina í í raun og veru er hægt að byrja hvar sem er.

Við í Rangárþingi eysta eru lánsöm að fyrir flest okkar eru aðeins nokkrir metrar í að komast í góða fjallgöngu. Fátt er dásamlegra en að komast út í nátttúruna, reyna aðeins á fæturna og ganga eins og eins og eitt fjall í góðra vina hópi, hver þó á sínum hraða. Dæmi um nálæg fjöll eru Hvolsfjall, Þríhyrningur, Stóra-Dímon og Þórólfsfell.

Svæðið við Tumaskóg var tekið í gegn í sumar af sumarstarfsmönnum áhaldahússins og tókst það mjög vel. Það er alveg upplagt að eyða tíma í Tumastaðaskógi með fjölskyldunni og taka með nesti.

Njótum samveru og útiveru saman, það er gaman!

Heilsu-, íþrótta- og æskulýðsnefnd Rangárþings eystra.