Útivist í Rangárþingi eystra - vinnum saman og virðum sóttvarnarreglur

Vegna hertra aðgerða í sóttvörnum og endurupptöku reglunnar um 2 metra á milli einstaklinga hafa breytingar orðið á fyrirhuguðum viðburðum í sveitarfélaginu. Viðburðir hafa fallið niður eða breytingar orðið og ljóst er að Kjötsúpuhátíðin verður ekki haldin í sömu mynd og áður. Þjónusta hinna ýmsu stofnanna hefur líka tekið breytingum með tilliti til þessara aðgerða. T.a.m. eru fjöldatakmarkanir í sundlaug og líkamsrækt og á facebook síðu Íþróttamiðstöðvarinnar á Hvolsvelli eru leiðbeiningar og tilmæli vegna þessara breytinga. Það skiptir miklu máli að fylgja öllum reglum til hins ítrasta og erum við öll í þessu verkefni saman.

En í Rangárþingi eystra er sannarlega hægt að njóta útivistar á skynsamlegan hátt á þessum tímum. Tveir nýjustu áfangastaðir sveitarfélagsins eru þannig í stakk búnir að vel er hægt að fylgja sóttvarnarreglum og halda 2 metrum á milli einstaklinga. Á Landeyjasand hefur verið opnuð gönguleið og hægt er að komast þar auðveldlega niður að sjó sem og ganga að flaki skipsins Sigurðar Gísla VE. Sandurinn nær yfir mikið flæmi og gaman er að koma, njóta útsýnisins og leika sér í svörtum sandinum. Til að komast að sandinum er keyrt sem leið liggur í Landeyjarhöfn og þar beygt á bílastæði fyrir gönguleiðina.

Tungu- og Tumastaðaskógar eru samliggjandi skógar í Fljótshlíðinni sem gaman er að heimsækja. Í Tunguskógi hefur verið unnið hörðum höndum að gerð göngustíga og hjólastígar eru í bígerð. Í skóginum upplifa ungir sem aldnir töfraveröld náttúrunnar á einstakan hátt. Nemendur Hvolsskóla hafa undanfarin ár unnið að fjölbreyttum verkefnum í Tunguskógi. Þau hafa gert brýr til að tengja saman svæðið, unnið að skemmtilegum verkefnum m.a.í ,,Álfaskóginum” þar sem finna má ýmsar furðuverur. Útbúið flatir þar sem hægt er að setjast niður og borða nesti, sulla í læknum og upplifa náttúruna. 

Heimsækjum náttúruperlur Rangárþings eystra og njótum útivistar á skynsaman hátt og munum 2 metra regluna.