Útivist og ratleikur í Rangárþingi eystra

Ratleikur Rangárþings eystra

Rangárþing eystra er fjölbreytt sveitarfélag steinsnar frá höfuðborginni sem gaman er að heimsækja. Fjölskyldur eiga ekki erfitt með að finna sér eitthvað við að vera og nú þegar mestu skiptir að huga að persónulegum sóttvörnum og forðast hópamyndun þá eru mörg tækifæri til að njóta sín í útivist í sveitarfélaginu.

Til að gera útivistina enn skemmtilegri þá býður Rangárþing eystra upp á ratleik sem snýst um að heimsækja útivistarperlur sveitarfélagsins, taka mynd af sér og sínum á staðnum og senda á netfangið heilsueflandi@hvolsvollur.is. Muna að merkja myndina með nafni einstaklings. Dregið verður svo úr innsendum myndum í byrjun september og eru vegleg verðlaun í boði.

Það eru 8 staðir í ratleiknum að þessu sinni

Efra-Hvolshellar. Þrír manngerðir hellar sem grafnir eru í gróft þursaberg.

Gluggafoss. 40 metra hár foss í Fljótshlíðinni. Fallegt og skemmtilegt umhverfi.

Steinahellir. Skemmtilegur hellir undir Eyjafjöllum. Staðsettur 36 km frá Hvolsvelli.

Stóri Dímon. 178 metra hátt fjall sem tilvalið er að klifra upp og njóta útsýnis.

Nínulundur. Í Fljótshlíðinni er lundur kenndur við Nínu Sæmundsson höggmyndalistakonu.

Nauthúsagil. Ganga fyrir alla inn í stórglæsilegt gil. Hér gætu tær blotnað.

Þórólfsfell. 574 metra hátt móbergsfjall sem gaman er að glíma við.

Landeyjafjara. Fjara þar sem hægt er að gleyma stund og stað í góðu veðri.

Verið velkomin í Rangárþing eystra og njótið alls þess sem sveitarfélagið hefur upp á bjóða.